BUH eru æskulýðssamtök innan Hjálpræðishersins á Íslandi: Barna- og unglingastarf Hjálpræðishersins (BUH). Markmið BUH er að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist til barna og unglinga. Það er gert í gegnum ýmis konar viðburði, hópa o.fl., til dæmis sunnudagaskóla, barnafundi, unglingafundi, heimahópa, tónlistar- eða íþróttahópa.
BUH skal með starfi sínu hjálpa börnum og unglingum að þroska hæfileika sína og byggja upp jákvætt samfélag. Allir eru velkomnir í BUH og í samskiptum skal alltaf hafa náungakærleika og virðingu að leiðarljósi.
BUH býður upp á ýmsa spennandi viðburði, auk hefðbundins vikustarfs í hverjum flokki.
Haustið 2020 hóf Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ samstarf við KFUM&KFUM um sameiginlegt unglingastarf. Starfið er á miðvikudagskvöldum kl. 20-21:30, boðið er upp á mat kl. 19 og starfið er ætlað fyrir unglinga í 8.-10. bekk grunnskóla.
Við bjóðum börn, unglinga og ungt fólk að 26 ára aldri velkomin sem meðlimi í BUH. Meðlimir fá afslátt af ýmsum viðburðum og hafa til dæmis kjörgengi í stjórn FAbU, sem er barna- og unglingastarf Hjálpræðishersins á Íslandi, í Noregi og Færeyjum.
Barna- og unglingastarf Hjálpræðishersins er með Minecraft server, þar sem ungmenni hittast til að spila.
Vissir þú að það er hægt að fermast í Hjálpræðishernum? Í fermingarundirbúningnum er farið í fermingarferð til Noregs í eina viku að hausti og fræðslan fer einnig fram yfir veturinn. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við flokksleiðtoga á hverjum stað.
Skráning í fermingarundibúning í reykjavík veturinn 2021-2022
Hjálpræðisherinn heldur mörg spennandi unglingamót á hverju ári, bæði á Íslandi og í Noregi. Helst ber að nefna páskamót sem haldið er á Íslandi annað hvert ár og unglingafestival sem haldið er í Noregi á hverju sumri en boðið er upp á skipulagða ferð þangað annað hvert ár (þegar ekki er páskamót það ár). Auk þessa eru haldin mót fyrir eldri unglinga / unga fullorðna, námskeið, leiðtogaþjálfun og fleira skemmtilegt.
Barnafestival er haldið í Noregi í byrjun ágúst á hverju ári.
LUP er leiðtogaþjálfunarverkefni FAbU og snýst um að gefa ungu fólki tækifæri til að spreyta sig og vaxa sem leiðtogar. Þátttakendur fara á þrjú helgarnámskeið yfir veturinn og sinna þess á milli ýmsum verkefnum í sínum flokki. Ungu leiðtogarnir njóta leiðsagnar mentors meðan á verkefninu stendur.
FAbU, barna- og unglingastarf Hjálpræðishersins á Íslandi, í Noregi og Færeyjum, hefur gefið út hugvekjuapp. Það heitir 365 raske og þar eru stuttar hugvekjur fyrir hvern dag ársins. Hugvekjurnar eru á norsku en hér má nálgast nokkrar þeirra sem þýddar hafa verið yfir á íslensku.
Hér má finna umfjöllun Fréttablaðsins um starf BUH.