Saga

 

Catherine og William BoothUpphafið að starfsemi Hjálpræðishersins má rekja til ársins 1865 þegar hjónin Catherine og William Booth hófu að bera út fagnaðarerindið í fátækrahverfinu Whitechapel í London. Á fáum árum breiddist starfsemi Hjálpræðishersins út um allan heim og festi hreyfingin fætur hér á landi árið 1895.

Starf Hjálpræðishersins á Íslandi hófst þann 12. maí 1895, með útisamkomu á Lækjartorgi og samkomu í Góðtemplarahúsinu. Frumherjar starfsins hér á landi voru tveir foringjar, Christian Erichsen yfirforingi frá Danmörku ásamt kapteininum Þorsteini Davíðssyni frá Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Strax á upphafsárinu festu þeir kaup á steinhúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hefur gjarnan verið kallað Herkastalinn. Í húsinu var lengi rekið gistiheimili en þar var einnig starfsemi Reykjavíkurflokks. Á tímabili voru gistihús Hjálpræðishersins opin á sjö stöðum á landinu. Flest þessi heimili voru rekin sem griðarstaðir fyrir fólk sem hvergi átti höfði sínu að halla.

Árið 2016 var Herkastalinn seldur og nú standa yfir framkvæmdir við nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut. Áætluð verklok eru haustið 2020. Nýja húsnæðið mun hýsa starfsemi Hjálpræðishersins í Reykjavík, aðalskrifstofu Hjálpræðishersins á Íslandi, Hertex verslun, kaffihús og velferðarstarf.