Velferðarstarf

Súpa, sápa og hjálpræði

Hjálpræðisherinn hefur frá upphafi litið á boðun og félagslegt starf sem tvær hliðar á sama máli. Starf okkar er tengt kristinni trú og náungakærleika órjúfanlegum böndum, sem þýðir fyrir okkur að sýna alhliða umhyggju. Við lítum á einstaklinginn sem heild sem hefur líkamlegar, sálfræðilegar, andlegar og félagslegar þarfir. Að bjóða súpu er að mæta grunnþörfum samferðafólks. Sápa byggir á virði og sjálfsvirðingu. Hjálpræði á við um óendanlegan og lífsbreytandi kærleika Guðs í gegnum Jesú Krist. 

(William Booth, 9. maí 1912)

Á Íslandi eru þeir fjármunir sem safnast í velferðarsjóði flokkanna notaðir á margvíslegan hátt.

Stærstur hluti upphæðarinnar er notaður til að reka opið hús í Reykjavík þar sem allt að 180 einstaklingar koma daglega og þiggja heita máltíð og njóta góðrar samveru. Í gegnum tíðina hefur verið veitt aðstoð í formi korts í matvöruverslun, en hefur sá siður lagst af að mestu, þar sem opið er alla virka daga í heita máltíð fyrir alla sem á því þurfa að halda. Á Akureyri er opið hús fyrir fjölskyldur einnig rekið fyrir fé úr velferðarsjóði en þangað koma vikulega um 30 manns og eiga gæðastund saman auk þess að borða heita máltíð.

Nýtt símanúmer fyrir velferðarþjónustu hefur verið tekið upp hjá Hjálpræðishernum í Reykjavík. Senda þarf sms með nafni og kennitölu og panta tíma í viðtal. Símanúmerið er620-6780. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið: velferd@herinn.is

Árlega aðstoðar Hjálpræðisherinn fjölda fólks með fatnað og húsgögn og einnig kemur fyrir að aðstoða þarf með einstaka reikninga þegar þannig stendur á hjá fólki. Hvert dæmi er metið fyrir sig eftir þeim gögnum sem fyrir liggja, eftir samtal. Velferðarsjóður greiðir einnig fyrir jólaveislu Hjálpræðishersins sem árlega er haldin í húsnæði Hjálpræðishersins í Reykjavík að Suðurlandsbraut 72. Fé úr velferðarsjóði hefur einnig verið notað til að gera einstaklingum, stórum jafnt sem smáum, kleift að taka þátt í viðburðum sem þeir hefðu annars ekki átt kost á. Hægt er að sækja um til velferðarsjóðs og er hvert tilfelli metið fyrir sig. Að auki má nefna samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins: Samvera og góðar minningar, þar gefst fjölskyldum kostur á að koma saman og taka þátt í skemmtilegri dagskrá í fallegu umhverfi og búa þannig til góðar minningar í sumarfríinu á stað þar sem þeim hefði ekki haft tækifæri til að gera án aðkomu velferðarsjóðsins.

Hér er hægt að styrkja velferðarstarf Hjálpræðishersins.

Hjálpræðisherinn er þakklátur þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem leggja starfinu lið með ýmsum hætti. Annað hvort með beinum fjárframlögum, gjöfum eða sjálfboðaliðastörfum.