Saga

Hjálpræðisherinn á Íslandi í 125 ár

Catherine og William BoothUpphafið að starfsemi Hjálpræðishersins má rekja til ársins 1865 þegar hjónin Catherine og William Booth hófu að bera út fagnaðarerindið í fátækrahverfinu Whitechapel í London. Á fáum árum breiddist starfsemi Hjálpræðishersins út um allan heim og festi hreyfingin fætur hér á landi árið 1895.

Starf Hjálpræðishersins á Íslandi hófst þann 12. maí 1895, með útisamkomu á Lækjartorgi og samkomu í Góðtemplarahúsinu. Frumherjar starfsins hér á landi voru tveir foringjar, Christian Erichsen yfirforingi frá Danmörku ásamt kapteininum Þorsteini Davíðssyni frá Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu. Strax á upphafsárinu festu þeir kaup á steinhúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hefur gjarnan verið kallað Herkastalinn. Í húsinu var lengi rekið gistiheimili en þar var einnig starfsemi Reykjavíkurflokks. Á tímabili voru gistihús Hjálpræðishersins opin á sjö stöðum á landinu. Flest þessi heimili voru rekin sem griðarstaðir fyrir fólk sem hvergi átti höfði sínu að halla. Foringjarnir ferðuðust einnig víða um landið og boðuðu fagnaðarerindið ásamt því að kynna mannúðarstarf Hersins fyrir landsmönnum.

 

Breiddist hratt út

Útisamkoma á LækjartorgiÁ Íslandi líkt og víða um heim breiddist starfsemi hersins hratt út og árið 1923 var eða hafði Hjálpræðisherinn verið að finna vítt um landið í Hafnarfirði, á Ísafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Vestmannaeyjum, Siglufirði og Akureyri.

Hjálpræðisherinn var frumkvöðull á Íslandi líkt og víða annars staðar. Árið 1898 var stofnað hér á landi Kærleiksbandið sem var tilboð fyrir börn og ungmenni að læra handverk, drengir fengu að læra trésmíði, skósmíði og teikningu en stúlkur fengu að læra hannyrðir. Þá var Herinn einnig með öflugt barnastarf, bæði samkomur og sunnudagaskóla.

 

Nytjamarkaður og vinnumálaskrifstofa

Árið 1903 var fyrsti vísir að fata- og nytjamarkaði Hjálpræðishersins settur á laggirnar. Starfsemi þessi fékk nafnið Dorkasbandalagið. Markmið bandalagsins var að safna óslitnum fötum og fataefnum og gera úr þeim góðar flíkur og dreifa til barna sem komu frá efnalitlum heimilum. Dorkasbandalagið stóð einnig árlega fyrir basar og rann ágóði hans til félagslegs starfs Hjálpræðishersins.

Hjálpræðisherinn stofnaði árið 1908 vinnumálaskrifstofu þar sem fólk gat skráð sig sem var atvinnulaust og árið 1907 var einnig starfrækt hér eftirspurnarskrifstofa þar sem fólk gat grennslast fyrir um týnda ættingja erlendis. Slíkt úrræði má enn finna innan Hersins í dag þar sem tengslanet Hersins nær yfir 131 lönd.

Starfsemin að öðru leyti snerist að mestu um sjómannaheimili og almennt safnaðarstarf. Heimilasambandið- kvennastarf Hjálpræðishersins hófst árið 1924 á Akureyri og fjórum árum síðar í Reykjavík.

Árið 1928 hóf Hjálpræðisherinn á Íslandi skipulagðar matargjafir til fátækra. Gistiheimili Hersins í Hafnarfirði var það sama ár breytt í sjúkrahús (Berklahæli) og rak Hjálpræðisherinn það sjúkrahús allt til ársins 1932.

 

Til staðar þar sem þörfin er mest

Þegar síðari heimsstyrjöldin skall á var Hjálpræðisherinn til staðar á nýjan hátt. Mikil þörf var á vöggustofum fyrir börn sem mæður gátu ekki séð um og rak Hjálpræðisherinn slíkt úrræði 1941-1942 þar sem herinn sá um að koma börnum til ættleiðingar eða í fóstur.

Að stríðinu loknu rak Hjálpræðisherinn sumarbúðir fyrir börn sem komu frá efnaminni heimilum og/eða erfiðum félagslegum aðstæðum í 15 ár. Þessi staður bar nafnið Sólskinsblettur.

Árið 1965 hóf Hjálpræðisherinn starfsemi fyrir ungar stúlkur í erfiðum aðstæðum í húsnæði á Seltjarnarnesi. Rekstur þess heimilis gekk ekki að óskum og úr varð að starfsemin var lögð niður fáeinum árum síðar. Árið 1968 var hins vegar hafin starfsemi vistheimlisins Bjargs í sama húsnæði, úrræði fyrir geðfatlaða karla og rak Hjálpræðisherinn þá starfsemi allt til ársins 2018. Starfsemin er nú rekin af öðrum rekstaraðilum í sama húsnæði.

Um miðjan 8. áratug síðustu aldar var blómleg starfsemi Hjálpræðishersins í efra Breiðholti. Þar var ungt fólk að nema land og mikið var um nýbyggingar. Engar kirkjur voru á svæðinu og þegar best lét var sunnudagaskóli Hersins (sem var haldinn á laugardögum) í Hólabrekkuskóla og sóttu hann um og yfir 100 börn þegar best lét.

 

Nýr flokkur á réttum tíma

Árið 2007 færði Hjálpræðisherinn út kvíarnar og stofnaði nýjan flokk í Reykjanesbæ. Árin á undan hafði fjarað undan starfi hersins víða um land og voru einungis eftir flokkar á Akureyri og í Reykjavík. Flokkurinn í Reykjanesbæ kom á hárréttum tíma, rétt fyrir hrunið og var starfsemi þar afar mikilvæg í miðju þeirra miklu þrenginga sem Íslendingar stóðu frammi fyrir árin 2007-2010. Barnastarf var öflugt og safnaðarstarf óx.

Árið 2007 hóf Hjálpræðisherinn einnig starfsemi Dagseturs fyrir heimilislausa að Eyjarslóð á Granda. Sú starfsemi var brautryðjandi í stuðningi við þennan jaðarsetta hóp og gerði hann sýnilegri í augum yfirvalda og almennings. 

 

Nýr kafli í Reykjavík

Árið 2012 hófst starfsemi í Mjódd þar sem sett var á laggirnar fjölskyldu- og fjölmenningarmiðstöð. Ætlunin var að þar skyldi vera verslun og kaffihús með félagsstarfi fyrir fjölskyldur og fólk frá mismunandi menningarhópum. Var svo fyrst um sinn en smátt og smátt breyttist starfsemin, verslunin hætti og úr varð eingönu félagslegt úrræði. Árið 2015 ákvað Hjálpræðisherinn að selja húsnæði sitt í Kirkjustræti og stefna á ný mið. Ljóst var að húsnæðið var orðið þröngt og óhentugt þeirri starfsemi sem hafði verið í húsinu. Fest voru kaup á lóðinni að Suðurlandsbraut 72 og var það haft að leiðarljósi við hönnun húsnæðisins að hafa sama hugrekki og foringjarnir tveir sem höfðu komið til Íslands árið 1895 og fest kaup á því kennileiti sem Herkastalinn í Kirkjustræti var. Er það ósk þeirra sem starfa innan Hjálpræðishersins á Íslandi að nýi Herkastalann megi verða slíkt kennileiti í Reykjavík og að starfsemi hins nýja kastala megi vera jafn blómleg bæði hvað varðar félagslegt starf sem og flokksstarf um ókomna framtíð, með einkunnarorðum Hersins- Ísland fyrir Krist!