Aðstoða þau allra fátækustu á tímum heimsfaraldurs

Hjálpræðisherinn í Bangladesh veitir upplýsingar um smitvarnir og deilir einnig út hreinlætis- og ma…
Hjálpræðisherinn í Bangladesh veitir upplýsingar um smitvarnir og deilir einnig út hreinlætis- og matarpökkum. Mynd: The Salvation Army/Flickr

Greinin birtist í jólablaði Herópsins 2020 og er þýdd úr norska Herópinu.  Texti: Marit Dehli-Johannesen, þýðing: Herdís Helgadóttir.

Others, vörumerki Hjálpræðishersins fyrir sanngjörn viðskipti, tekur virkan þátt í hjálparstarfinu, bæði í Bangladesh og Kenía.

„Við höldum starfinu gangandi eins og mögulegt er. Það er mikilvægt til að tryggja að fólk missi ekki sinn eina tekjumöguleika,“ segir Bo Christoffer Brekke, verkefnastjóri Others og yfirmaður alþjóðlegs þróunarsviðs Hjálpræðishersins.

Lausnin fyrir marga framleiðendur er að þeir geta unnið heima með saumavélarnar sínar. Áfram eru innanhússmunir og eldhúsáhöld framleidd fyrir vestrænan markað en einnig eru grímur saumaðar til að vernda fólk í nærsamfélaginu. Others-verkefnastjórnin í Bangladesh ásamt Hjálpræðishernum þar í landi veitir upplýsingar um smitvarnir og deilir einnig út hreinlætis- og matarpökkum. Hingað til hefur neyðaraðstoðin í Bangladesh náð til vel yfir 30.000 einstaklinga og verkefnið er styrkt af alþjóðlegu þróunarsviði Hjálpræðishersins í umdæminu Noregi, Íslandi og Færeyjum. Aðstoðin er veitt í gegnum heilbrigðisstofnanir Hjálpræðshersins, þróunarverkefni og önnur úrræði í samfélaginu. Náið samstarf er við yfirvöld til að skilgreina þá hópa sem hafa mesta þörf fyrir aðstoð.

„Flestir framleiðendurnir okkar tengjast okkur í gegnum velferðarstarf Hjálpræðishersins á hverjum stað. Hluti þeirra hefur fengið neyðaraðstoð vegna Covid-19,“ segir Bo Christoffer.

Others er hluti af alþjóðlegu starfi Hjálpræðishersins í stríðinu gegn fátækt. Markmiðið er að skapa atvinnutækifæri við réttlátar aðstæður og fyrir sanngjörn laun.

„Stór hluti framleiðendanna okkar er konur sem þurfa að sinna börnum og heimili á meðan maðurinn vinnur á sveitabæ, byggingastað eða í verksmiðju langt frá heimilinu á hverjum degi. Kórónaveirufaraldurinn hefur farið illa með margar fjölskyldur sem lifa af einum launum eða þar sem efnahagur heimilisins er ekki sterkur. Þegar stórar verksmiðjur loka, heildsalar hætta við pantanir og fólk missir sinn eina tekjumöguleika, lenda margar fjölskyldur í gríðarlega erfiðri stöðu,“ segir Bo Christoffer Brekke.

Í Kenía veita Others framleiðendurnir og Hjálpræðisherinn upplýsingar um smitvarnir. Þar er einnig unnið náið með yfirvöldum og sóttvarnarbúnaði er deilt út til að fyribyggja að smit dreifi sér.

„Með því að halda áfram að bjóða vinnu, sjáum við til þess að fjölskyldurnar lendi ekki í eins erfiðri fjárhagsstöðu og geti áfram séð fyrir sér og verið til staðar fyrir fólkið í kringum sig.“