Hjálpræðisherinn á Akureyri flytur

Hvannavellir 10, Akureyri.
Hvannavellir 10, Akureyri.

Hjálpræðisherinn á Akureyri hefur frá haustinu 1981 verið til húsa í Hvannavöllum 10. Nú verður breyting þar á þar sem húsið við Hvannavelli hefur verið selt og nýr eigandi tekur við húsinu í byrjun sumars. Fest hafa verið kaup á stórum hluta hússins í Hrísalundi 1a, sem flestir þekkja sem Lón, og þann 1. júní nk. mun Hjálpræðisherinn á Akureyri flytja starfsemi sína þangað. Þá verður flokksstarfið í næsta húsi við Hertex verslunina sem er staðsett í Hrísalundi 1b.

Húsið í Hvannavöllum hentar starfseminni ekki nægilega vel lengur og þónokkur ár eru síðan ljóst varð að breytinga væri þörf. Sigríður Elín Kjaran, flokksforingi á Akureyri, segir að þótt verkefnið sé stórt, sé tilhlökkunin mikil. „Það eru mikil tækifæri fylgja því að hafa verslunina og flokkinn á sama stað. Samstarfið á milli þessara tveggja eininga hefur verið gott og nú lítum við til þess að gera enn meira saman. Það er auðvitað stórt verkefni að byrja starfið á nýjum stað og í nýju hverfi en við trúum því að þetta verði til blessunar fyrir flokkinn okkar.“

Vegna flutninganna verður töluverð röskun á starfsemi Hjálpræðishersins á Akureyri fram að sumri. Sem stendur eru vikulegar samkomur, hádegisbænastundir, prjónahópur og unglingastarf en eftir páska má reikna með því að umfang starfsins minnki. Stefnt er að því að hefja starfið af fullum krafti á nýjan leik haustið 2021.