Hjálpræðisherinn fordæmir allt kynþáttahatur

Samfélagsmiðlar eru þessa dagana fullir af stuðningsyfirlýsingum eftir að George Floyd var handtekinn og lést í Minneapolis í Bandaríkjunum þann 25. maí. Harkaleg meðferð lögreglu á Floyd varð til þess að hann lést. 

Brian Peddle, hershöfðingi Hjálpræðishersins, er einn þeirra sem hafa tjáð sig um málið. Á Facebook síðu sinni skrifar hann: „Hjálpræðisherinn fordæmir öll form kynþáttahaturs!

Við störfum í 131 landi og þar mætum við bæði óréttlæti, misrétti, kynjamisrétti og löngum lista annarra félagslegra vandamála sem fá fólk til að segja „ég get ekki andað.“ Þótt þessi tilvitnun sé tengd við Bandaríkin getur maður, ef maður hlustar vel, heyrt hana koma frá Róhingjafólki, innflytjendum, flóttamönnum og hælisleitendum. Þú getur heyrt setninguna koma frá fórnarlömbum Covid-19 sem hafa ekki aðgang að öndunarvélum og geta því ekki andað. Lífið er ekki réttlátt fyrir alla.“ 

Hershöfðinginn biðlar til herfólks um allan heim að standa saman gegn kynþáttahatri. Hann hvetur fólk einnig til að lesa yfirlýsingu Hjálpræðishersins um kynþáttahatur. Þar stendur meðal annars Hjálpræðisherinn trúir því staðfastlega að kynþáttahatur gangi gegn áætlun Guðs fyrir mannkynið en á sama tíma erum við meðvituð um að tilhneigingin til kynþáttahaturs er til staðar í öllum einstaklingum og samfélögum. Þar kemur einnig fram að búist sé við því að herfólk taki þátt í baráttunni gegn kynþáttahatri, meðal annars með því að:

  • Bera virðingu fyrir virði einstaklingsins, allar manneskjur eru skapaðar í Guðs mynd.
  • Leitast við að hafa áhrif á viðhorf annarra með því að afneita staðalímyndum og bröndurum sem byggja á kynþáttafordómum. 
  • Ala börnin sín upp með það hugarfar að kunna að meta fjölbreytileika mannfólks og menningar. 
  • Leggja sitt af mörkum við að ná fram réttlæti fyrir fórnarlömb kynþáttahaturs. 

Hershöfðingin vísar að lokum í orð stofnanda Hjálpræðishersins í þekktri ræðu og umorðar: „Ég mun berjast gegn kynþáttafordómum allt til enda!“