Jólaboð fellt niður

Það er með miklum trega eftir samtal við Almannavarnir að Hjálpræðisherinn í Reykjavík hefur ákveðið að fella niður jólaboð sitt á aðfangadag. Þar sem rúmlega 300 gestir og sjálfboðaliðar höfðu skráð sig til leiks, þar af um 150 börn, teljum við það óábyrgt og of áhættusamt að blanda saman svo mörgum úr ólíkum hópum.

Hjálpræðisherinn leggur áherslu á það að öll þau sem skráðu sig munu fá upplýsingar um hvernig þau geti nálgast jólagjöf, bæði fullorðnir og börn og að reynt verði eftir fremsta megni að halda áfram að þjónusta þann stóra jaðarsetta hóp sem daglega kemur og þiggur heita máltíð hjá Hernum, eins og reyndar hefur verið gert allan faraldurinn.

Hjálpræðisherinn vill þakka öllum þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem lagt hafa söfnun í Velferðarsjóð lið með framlögum af ýmsu tagi, sérstaklega nú í desember.