Líf og fjör í Hernum í Reykjanesbæ

Sjálfboðaliðar við fataflokkun Hertex í Reykjanesbæ
Sjálfboðaliðar við fataflokkun Hertex í Reykjanesbæ

Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ varð þann 1. ágúst sl. útibú frá Hjálpræðishernum í Reykjavík. Í Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ er fataflokkun fyrir Hertex og konurnar sem sinna sjálfboðastörfum þar eru máttarstólpinn í flestu því starfi sem fram fer í húsinu. Fötin sem flokkuð eru í Reykjanesbæ eru send þaðan í verslanirnar í Reykjavík eða seld í pop-up búð sem er opin hverja helgi í húsnæði Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ. Á laugardögum er kaffihúsastemming í búðinni og hægt að kaupa kaffi og vöfflur. Fylgjast má með opnunartíma á Facebooksíðu Hersins í Reykjanesbæ.

Flokksstarfið verður einnig líflegt og fjölbreytt í vetur. Þar er prjónahópur öll þriðjudagskvöld og síðasta þriðjudag var í fyrsta sinn hádegissamvera sem kallast bæn&matur í Hernum í Reykjanesbæ. Sambærilegar stundir hafa verið í Hjálpræðishernum á Akureyri svo árum skiptir og óhætt er að segja að starfið í Reykjanesbæ lofi góðu. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða bænastund og léttan hádegisverð. 

Í vetur verða einnig spennandi tilboð fyrir börn og unglinga en Hjálpræðisherinn er aðili að verkefninu Allir með sem er metnaðarfullt og yfirgripsmikið verkefni í Reykjanesbæ sem stuðlar að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu. Lagt er upp með að öll börn séu í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi ásamt því að allir sem starfi með börnum vinni að vellíðan þeirra með skipulögðum hætti. Nánar má lesa um verkefnið hér. Linda Björk Hávarðardóttir, verkefnastjóri BUH í Reykjavík, segir ánægjulegt að taka þátt í þessu stóra verkefni og ljóst sé að eftirspurn sé eftir starfi BUH í Reykjanesbæ.

Þessa dagana er í gangi undirbúningsvinna fyrir unglingastarf í Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ sem verður í samstarfi við KFUM&KFUK. Starfið verður á miðvikudagskvöldum og Almar Ingi Ólason mun sjá um starfið ásamt starfsmanni KFUM&KFUK. Unglingastarfið hefst næstkomandi miðvikudag í húsnæði Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ og er opið fyrir unglinga í 8. bekk og eldri.

Einn laugardag í mánuði verður svokallað Messy church, fyrsta slíka stundin verður laugardaginn 26. september kl. 11-13. Í Reykjavík hefur síðustu ár verið boðið upp á Messy church og hefur tilboðið notið mikilla vinsælda.  

Við bjóðum alla velkomna í Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ!