Margfalt fleiri leita sér aðstoðar fyrir jólin

Hægt er að nota QR kóðann á myndinni til að styrkja starfið.
Hægt er að nota QR kóðann á myndinni til að styrkja starfið.

Hjálpræðisherinn í Reykjavík hefur tekið á móti um 600 umsóknum um mataraðstoð fyrir jólin. Þetta er gríðarleg aukning frá síðasta ári þegar umsóknir voru um 200 talsins, eða um 200% aukning. Um 470 einstaklingar og pör fá aðstoð frá Hjálpræðishernum í Reykjavík fyrir jólin, samanborið við 170 í desember í fyrra. Hjálpræðisherinn í Reykjavík aðstoðar einstaklinga og barnlaus pör á höfuðborgarsvæðinu en fjölskyldur geta sótt um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar. Aðstoðin er í formi gjafakorta í verslunum Krónunnar.

Eins og gefur að skilja kallar þessi aukning á aukin útgjöld vegna aðstoðarinnar. Það gengur þó vel að safna. Hjördís Kristinsdóttir, foringi í Hjálpræðishernum í Reykjavík, segir fyrirtæki og samtök mörg hver styrkja starfið um hærri upphæð í ár en síðustu ár til að mæta aukinni þörf í samfélaginu. Þá fer söfnunin í jólapottinn mjög vel af stað. Hjálpræðisherinn er afar þakklátur fyrir þennan mikla meðbyr og rausnarlegan stuðning við velferðarstarfið.

Á næstu mánuðum mun velferðarstarf Hjálpræðishersins í Reykjavík breytast og minna verður um inneignarkort í matvöruverslanir. „Við munum einbeita okkur að því að bjóða upp á heitan mat fimm sinnum í viku. Það eru aðallega einstaklingar sem leita til okkar en ekki fjölskyldur, svo það munar jafnvel enn meira um slíkan stuðning,“ segir Hjördís.

Skráning í jólamat Hjálpræðishersins á aðfangadag er enn opin. Endanlegt fyrirkomulag veislunnar liggur enn ekki fyrir en veislan verður útfærð í samræmi við sóttvarnareglur. 

Hér er hægt að styrkja velferðarstarf Hjálpræðishersins

 

Nýtt hús Hjálpræðishersins í Reykjavík

Nýtt hús Hjálpræðishersins í Reykjavík.  Mynd: Ingvi Kristinn Skjaldarson.

 

Jólapotturinn í Mjódd árið 2019. Mynd: Ingvi Kristinn Skjaldarson