Nýtt skipulag á Íslandi og í Færeyjum

Það hefur lengi verið unnið að skipulagi fyrir starf Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum. Síðasta árið hefur sú vinna farið fram í samstarfi dagskrársviðs, umsýslusvið, mannauðssviðs og deildarstjóra Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum.  

„Það er samstaða um að það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt lengur að Hjálpræðisherinn á Íslandi og í Færeyjum sé deild, og að það sé eðlilegra og réttara í skipulagi Hjálpræðishersins að löndin verði skilgreind sem svæði,“ segir aðalritarinn Bente S. Gundersen. „Á sama tíma er það mikilvægt að varðveita félagsskapinn, að bæði löndin finni að þau tilheyri umdæminu, auk sálgæslu og eftirfylgni við foringjana.“   

Eigin stjórn í löndunum  

Breytingin felur í sér að ekki verður lengur deildarskrifstofa sem fer með stjórnun Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum, heldur að svæðið Ísland og svæðið Færeyjar munu hafa hvort sinn svæðisforingjann frá 1. ágúst 2020. Eins og fram kom í frétt á Perleportalen (innri fréttaveitu Hjálpræðishersins) í þarsíðustu viku, verður lautinant Hjördís Kristinsdóttir svæðisforingi á Íslandi og major Björn Ove Fröyseth svæðisforingi í Færeyjum. Hlutverkin bætast við hlutverk þeirra sem flokksforingjar í Reykjavíkurflokki og Tórshavnflokki. Svæðisforingjarnir heyra beint undir aðstoðaraðalritara.  

„Svæðisforingjarnir munu bera ábyrgð á daglegum rekstri og stjórnun, meðal annars mannauðsmálum og stjórnun,“ segir Bente. „Á Íslandi er starfandi stjórn og stjórn fasteigna og svæðisforinginn mun fara fyrir þessum stjórnum auk þess að vera forstöðumaður trúfélagsins.“ 

„Til að tengja foringjana á Íslandi og í Færeyjum betur við samstarfsfólk sitt verður foringjum á Íslandi boðið á foringjafundi og -samkomur í Sentraldeildinni en þeim sem starfa í Færeyjum verður boðið með í Vesturdeildinni,“ segir Bente.  

Mismunandi lausnir í gegnum tíðina

Í sögulegu samhengi hefur starf Hjálpræðishersins á Íslandi og í Færeyjum verið skipulagt á ýmsan hátt. Starfið hófst 1895 og 1924 og í síðustu viku var haldið upp á 125 ára afmæli Hjálpræðishersins á Íslandi. Á sjötta áratug síðustu aldar varð starfið í löndunum tveimur deild í norska umdæminu. Áður höfðu Færeyjar heyrt undir starfið í Danmörku en Ísland heyrði á tímabili á fimmta áratugnum beint undir alþjóðlegu höfuðstöðvarnar. Á seinni árum hafa löndin tvö verið tvö svæði, snemma á þessari öld, en svo var horfið aftur til deildarskipulagsins árið 2010.  

Í dag samanstendur Hjálpræðisherinn á Íslandi af flokki í Mjódd í Reykjavík, flokki í gömlu herstöðinni í Keflavík og flokki á Akureyri. Í Reykjavík og á Akureyri eru einnig Hertex verslanir. Í Reykjavík er deildarskrifstofan með 2,5 stöðugildi. Gistiheimilið sem var í miðbæ Reykjavíkur í sama húsi og Reykjavíkurflokkur var selt fyrir nokkrum árum síðan til að fjármagna nýja flokksbyggingu sem nú er unnið við í borginni.  

Í Færeyjum eru flokkar í Tórshavn og Våg. Auk þess er Herbergið í Tórshavn og meðferðarúrræði fyrir unga vímuefnaneytendur.  

 

Hugtök sem notuð eru um skipulag í Hjálpræðishernum

 

Umdæmi

Land, landshluti eða nokkur lönd þar sem starf Hjálpræðishersins er skipulagt undir einum umdæmisstjóra / territorial commander (TC).   

Stjórnsvæði

Lítið umdæmi, með mun minni stjórnsýslu og skipulagi.   

Deild

Hugtak sem er aðallega notað um stærra svæði hvers skipulag og stjórnun heyrir undir deildarstjóra/stjórum frá deildarskrifstofu. Deildarstjórinn og -leiðtogarnir eru stöður/skipanir sem krefjast samþykkis frá Alþjóðahöfuðstöðvunum og frá hluta af forystunni í umdæminu. 

Svæði

Hefur haft ólíkar merkingar, en er nú notað í Hjálpræðishernum á alþjóðavísu sem lýsing á samansafni flokka á ákveðnu landsvæði eða landi. Svæði er ekki hluti af deild. Svæði hefur færri flokka, meðlimi og minni starfsemi en deild og þess vegna er eðlilega minni stjórnsýsla.  

Landsvæði

Hefur verið notað á ýmsan hátt í Hjálpræðishernum á alþjóðavísu en er í dag notað um land þar sem Hjálpræðisherinn er nýr.