Samleið

Samleið hjá Hjálpræðishernum.
Samleið hjá Hjálpræðishernum.

Hjálpræðisherinn í Reykjavík er að fara af stað með nýjung á fimmtudögum. „Við höfum valið að kalla þennan viðburð Samleið. Í anda þess að við erum saman á leiðinni heim.“ segir Linda Björk, verkefnastjóri BUH-Reykjavík. Samleið er fyrir börn og foreldra á leið heim úr skóla og vinnu, þar sem hægt er að eiga gæðastundir saman. „Gífurlega mikið framboð er af tómstundum fyrir börn, þar sem foreldrar skila börnum sínum og taka ekki þá sjálfir. Við viljum bjóða upp á tíma og rými fyrir fjölskyldur, utan heimilisins, gæðastundir þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af því að drífa sig heim að elda kvöldmatinn.“ Samveran leggur upp með að börn og foreldrar verji tíma saman og taki þátt í dagskránni og njóti svo matar saman að því loknu. „Þetta er auðvitað fyrir alla fjölskylduna“ segir Linda Björk, „líka ömmurnar og afana ef út í það er farið“ bætir hún við. 

Það verður gaman að sjá hvort það verði ekki vel tekið í þetta frábæra framtak hjá okkar fólki.

Vert er að vekja athygli á því að þetta tilboð er bæði í boði í Reykjavík og Reykjanesbæ.

Tilboðið er þátttakendum að kostnaðarlausu og er ekkert aldurstakmark og að sjálfsögðu eru allir velkomnir.