Starf Hjálpræðishersins um jólin

Í ár mun Hjálpræðisherinn í Reykjavík ekki vera með eiginlega jólaaðstoð né jólamat á aðfangadag. Ástæðan er einfaldlega sú að nú koma daglega um 250-300 manns í mat til okkar sem áður komu aðeins einu sinni á ári. Við höfum því ákveðið að starfsfólk okkar fái jólafrí þetta árið en við munum hafa heitan mat alla virka daga í desember. Um jól og áramót er opið eins og vanalega á virkum dögum og eini dagurinn sem er lokað er annar jóladagur 26. desember.

 

Við erum að safna englagjöfum til barna. 

Englagjafir
Við óskum eftir gjöfum fyrir börn sem leita til okkar á Hjálpræðisherinn. Til að mismuna ekki langar okkur að einfalda gjafaferlið. Við biðjum fólk að gefa gjafir í gjafapoka og merkja kyni og aldri
Aldurinn er 0-3 ára, 3-6 ára, 7-10 ára, 11-14 ára og 15-18 ára
Í hverjum poka þarf að vera tannbursti, tannkrem og t.d. sjampó eða sápa og/eða aðrar hreinlætisvörur sem passa aldri þess sem fær. Leikfang, húfa, vettlingar og hlýir sokkar. Sælgæti. Litabók/litir/spil/púsl
 
Við viljum alls ekki að gjöfunum sé pakkað inn heldur sett í opinn gjafapoka merktur kyni og aldri barns. Einnig má hafa gjafirnar hlutlausar. Gjafir má koma með til okkar frá 2.-15. des á opnunartíma Kastalakaffi. 

 

Að venju mun Hjálpræðisherinn einnig gefa gjafir til allra fanga sem dvelja í fangelsi um hátíðarnar ásamt því sem við förum með gjafir í gistiskýlin og búsetuúrræði fyrir fólk með flóknar þjónustuþarfir.

 

Gleðileg jól!