Umsóknum um jólaaðstoð á Akureyri fjölgar um 30%

Akureyri. Mynd: Herdís Helgadóttir.
Akureyri. Mynd: Herdís Helgadóttir.

Frá árinu 2013 hafa Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar starfað saman um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Samstarfið hefur gengið vel og gert það að verkum að hægt hefur verið að styðja einstaklinga og fjölskyldur á svæðinu með veglegri hætti en áður. Nú hefur verið ákveðið að stíga skrefi lengra og hafa samstarfið á ársgrundvelli. Heitið breytist því úr Jólaaðstoð í Velferðarsjóður. Með þessari breytingu er vonast til að einfaldara verði að leita sér aðstoðar allan ársins hring og að betur sé hægt að halda utan um upplýsingar um þörfina í samfélaginu. Starfssvæði sjóðsins er Eyjafjörður, frá Siglufirði til Grenivíkur.

Eins og við mátti búast voru umsóknir um jólaaðstoð árið 2020 nokkuð fleiri en árin á undan. Umsóknir bárust frá um 400 heimilum á svæðinu, samanborið við 309 árið 2019. Þó hefur vel gengið að fjármagna aðstoðina, enda styðja fyrirtæki og samtök á svæðinu myndarlega við sjóðinn.

Gera má ráð fyrir að eftirspurn eftir aðstoð haldi áfram að aukast á nýju ári. Jólapottur Hjálpræðishersins er mikilvægur liður í því að fjármagna þá mataraðstoð sem sinnt er allan ársins hring. Jólapottur Hjálpræðishersins á Akureyri verður settur upp á Glerártorgi föstudaginn 4. desember og stendur þar fram á Þorláksmessukvöld.

Þeim sem hafa áhuga á að styrkja Velferðarsjóð er bent á reikninginn 0302-13-175063, kt. 460577-0209. Við erum afar þakklát fyrir góðan stuðning sem gerir okkur kleift að styðja vel við þau heimili sem þurfa á aðstoð að halda fyrir jólin.