Við höllum okkur upp að Kristi og treystum honum

Viðtalið birtist í jólablaði Herópsins 2020.

Hjónin Sigurður Ívar Sölvason og Marie-Louise Bourquin, eða Siggi og Lou eins og þau eru yfirleitt kölluð, hafa vægast sagt átt viðburðaríkt ár. Lou flutti frá Sviss til Íslands í apríl, þau giftu sig í maí og fluttu til Noregs í ágúst. Þau starfa nú í Hjálpræðishernum í Harstad í Norður-Noregi og næsta haust stefna þau á að hefja nám við foringjaskóla Hjálpræðishersins.

 

„Þetta er búið að ganga vel,“ segir Siggi. „Það er auðvitað ýmislegt sem fylgir því að flytja á milli landa eins og að fá símanúmer, bankareikning og svoleiðis. En hér eru allir tilbúnir til að hjálpa og okkur hefur verið vel tekið.“

Nóg er af verkefnum í Hjálpræðishernum í Harstad, þar sem þau starfa í teymi ásamt flokksforingja. „Við deilum út mat aðra hverja viku og það er töluverð vinna sem fer í það. Það þarf til dæmis að sækja mat í verslanir, flokka hann og setja í poka. Við erum með risastóran frysti hér til að geyma matinn og við fáum gríðarlega mikið gefið frá verslunum. Það eru 10-15 sjáfboðaliðar með okkur í þessu verkefni. Svo erum við að reyna að koma umhverfissjónarmiðum að í mataraðstoðinni, nota niðurbrjótanlega poka, flokka rusl og þess háttar,“ segir Siggi.

 

Gott að geta hjálpað

„Ég spila mikið á píanóið í starfinu hér og svo vorum við að byrja með starf fyrir alla fjölskylduna sem er mjög spennandi,“ segir Lou. „Uppáhaldið mitt er samt prjónahópurinn, þar held ég áfram að prjóna lopapeysur eins og ég gerði á Akureyri. Mér finnst líka mjög gaman að taka þátt í mataraðstoðinni því þar sjáum við svo skýrt hvað starfið hefur mikla þýðingu og að við erum virkilega að hjálpa fólki.“

„Flestir í flokknum eru af eldri kynslóðinni en í gegnum tíðina hefur líka verið blómlegt barna- og unglingastarf. Við vonumst til þess að það komist í gang aftur,“ segir Siggi. „Stedet er það sem mér finnst skemmtilegast í starfinu hér. Það er frábært starf fyrir fólk sem er utanveltu í samfélaginu. Þar er meðal annars götufótbolti, hjólahópur, tónlistarkennsla og fleira. Það er alveg ljóst að þetta starf hefur hjálpað mörgum og við höfum heyrt vitnisburði frá mörgum sem hafa komið þarna inn og fengið nýtt líf. Svo er mikilvægt að byggja brú á milli velferðarstarfsins og flokksstarfsins. En ég er líka sammála Lou varðandi mataraðstoðina, það er svo gott að geta hjálpað fólki sem þarf á því að halda.“

 

Nýtt gildismat eftir heimsfaraldurinn

Starf Hjálpræðishersins í Harstad hefur gengið sinn vanagang í haust þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Vel er passað upp á sóttvarnir en ekki hefur þurft að fella niður starf. „Hversdagslífið hér gengur í rauninni vel,“ segir Siggi. „Ég held líka að eftir covid muni fólk vakna svolítið meira til vitundar um það hvað samvera, faðmlög og fleira skipta okkur miklu máli.

Við þurfum að vera óhrædd við að endurskoða hlutina, breyta til og taka djarfar ákvarðanir ef við viljum fá nýtt fólk í kirkjuna. Breytingar eru ekki endilega hættulegar og við verðum að treysta Guði.“ Lou er sammála því og segir það hollt að þurfa að endurmeta starfið og íhuga virkilega hvað það er sem skiptir máli. „Það hefur verið mikil umræða um það hverju hefur þurft að loka og hverju ekki. Svo fer sú umræða kannski út í spurninguna hvernig viljum við opna aftur? Þetta finnst mér spennandi hluti af starfi foringjans, að skoða starfið og þörfina á hverjum stað með gagnrýnum augum og ná þannig fram jákvæðri breytingu.“

Siggi og Lou eru sammála um að tungumálið sé stærsta áskorunin eftir að þau fluttu til Noregs. „Við gerum okkar allra besta til að tala norskuna og notum ensku bara í algjörri neyð. Mér finnst skemmtilegt að læra norskuna en maður er þreyttur á kvöldin, bæði andlega og líkamlega – en við eigum góða kaffivél,“ segir Siggi og hlær.

Fjarlægðin frá vinum og fjölskyldu getur einnig verið erfið. „Ég sakna fjölskyldunnar minnar oft mjög mikið,“ segir Lou, „við ætluðum einmitt að heimsækja þau í Sviss núna í október en það fór eins og það fór. Ég er gríðarlega þakklát fyrir tæknina sem gerir okkur kleift að eiga samskipti við vini og fjölskyldu í öðrum löndum en samskipti með hjálp tækninnar eru auðvitað ekki það sama og að hitta fólk.“

 

Treysta Jesú fyrir málunum

Þau segja fyrstu mánuðina á nýjum stað hafa gengið vel. „Þetta hefur verið rosalega skemmtilegt,“ segir Siggi. „Við hreyfum okkur mikið og höfum kynnst nýju fólki frá ólíkum menningarheimum. Náttúran hérna er líka alveg stórkostleg, það er dáleiðandi að fylgjast með sólargeislunum á fjallstindunum hérna við fjörðinn. Fólk er ánægt með okkar starf og samvinnan gengur mjög vel. Samskipti eru lykilatriði þegar maður er hluti af teymi. Þetta hefur auðvitað líka verið erfitt en það fylgja því alltaf vaxtaverkir þegar lífið manns stækkar. Ef maður vill fá meira út úr lífinu og gera eitthvað öðruvísi þá er það alltaf krefjandi. Við höllum okkur upp að Kristi og treystum honum, ef það koma upp erfið mál þá leggjum við þau í hans hendur.“

„Og það er svo gott að vita að við þurfum ekki að gera þetta ein,“ segir Lou. „Ef við gætum gert allt í eigin mætti þyrftum við ekki að treysta á Jesú. Það verður spennandi að fara í skólann en upp á síðkastið hef ég verið svolítið áhyggjufull. Ég hef beðið mikið því ég hugsa: hvernig verður það að fara í skóla næsta vetur, verður norskan okkar nógu góð? En ég veit að Biblían segir okkur að vera ekki áhyggjufull og ég reyni eins og ég get að treysta Jesú fyrir þessu. Það er gott að vita að við getum alltaf treyst honum.“