Vímulaus dagur

Vímulaus dagur er herferð á vegum Hjálpræðishersins. Dagurinn er tækifæri til umhugsunar um áfengi og vímuefni og til að sýna samstöðu með þeim sem þjást vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu, sinnar eigin eða annarra. Í dag, 8. júní, höldum við vímulausan dag og þema ársins er sumar og vímugjafar með áherslu á börn. 

Mörg börn hafa átt erfiðan vetur, meðal annars vegna lokana í skólum. Mörg börn fá heldur ekki sumarið og fríið sem þau hafa hlakkað til vegna þess að fullorðnir í kringum þau drekka of mikið áfengi. Mikill fjöldi barna upplifir mikla áfengisneyslu foreldra og í fríum upplifa 3 af hverjum 10 börnum að foreldrarnir drekki meira en vanalega. 

Áhyggjur af börnum

„Við höfum áhyggjur af börnum og unglingum sem upplifa óöryggi á heimilinu af ýmsum ástæðum,“ segir Elin Herikstad hjá velferðarstarfi Hjálpræðishersins í Oslo. „Hjálparsímar fyrir börn og unglinga fundu fyrir mikilli aukningu á meðan skólar voru lokaðir og að erindin eru alvarlegri en áður. Þess vegna hefur Hjálpræðisherinn áhyggjur af börnum og unglingum í fjölskyldum þar sem áfengi og vímuefni eru vandamál.“

Fyrir mörgum börnum eru skóli og frístundastarf frí frá heimilisaðstæðum. Í samkomubanninu lá nær allt frístundastarf niðri og skólastarf raskaðist töluvert. „Við sjáum líka að erfiðleikarnir sem fjölskyldurnar glíma við hafa í mörgum tilfellum aukist á þessum síðustu mánuðum. Það tengist meðal annars fjármálum, þrengslum, sjúkdómum eða skorti á tengslaneti,“ segir Elin. 

Netviðburður þetta árið

Oft hefur Hjálpræðisherinn haldið upp á daginn ásamt samstarfsaðilum sínum með því að fara út á stræti og torg og gefið óáfenga drykki. Í ár er dagurinn netviðburður og snýst um vitundarvakningu. Á Facebook er viðburður þar sem fólk getur skráð sig og þar má sjá myndband sem vekur mann til umhugsunar. Í stuttu máli sagt snýst dagurinn um að hvetja fólk til að íhuga sína eigin áfengisneyslu, sérstaklega í kringum börn og sérstaklega í sumarfríinu. Við viljum að öll börn fái gott sumar og engin börn þurfi að þjást vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu fullorðinna einstaklinga í kringum þau. 

 

Svona getur þú sýnt stuðning