Hjálpræðisherinn á Akureyri 120 ára

Hjálpræðisherinn á Akureyri var stofnaður árið 1904 og fagnar því 120 árum þetta árið.

Fyrir tveimur árum síðan flutti flokkurinn í nýuppgert húsnæði í Hrísalundi 1a en hafði þá verið til húsa í Hvannavöllum 10 í 40 ár. Þar áður var flokkurinn til húsa íStrandgötu 19b (Laxamýri) frá árinu 1916, en lesa má um húsið í þessum pistli á akureyri.net. 

Starf flokksins hefur verið fjölbreytt og rík hefð er fyrir æskulýðsstarfi. Nú er fjölskyldustund sá hluti starfsins sem best er sóttur, það er gæðastund fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Þar er fræðsla, leikir, föndur og boðið upp á heitan kvöldmat. Fjölskyldustund er alla miðvikudaga kl. 16-18. Þá eru bænastundir í hádeginu alla mánudaga og heitur matur á eftir. 

Dagskrá Akureyrarflokks má sjá hér. 

 

Afmælishátíðin

Haldið verður upp á afmælið sunnudaginn 28. apríl, bæði með veislu og tónleikum.

Kl. 13-15 verða hátíðahöld, ávarp, söngur, leikir og fjör. Boðið verður upp á veitingar og sérstök áhersla lögð á að þau yngstu skemmti sér vel. 

Kl. 20 verða afmælis- og styrktartónleikar. Meðal þeirra sem koma fram eru Siggi og Rannvá, Gospelkór Akureyrar, Lára Ósk, Lárus Óskar og Íris Lind. Miðaverð er 3000 krónur og forsala fer fram í verslun Hertex á Akureyri. 

Öll dagskrá fer fram í húsnæði Hjálpræðishersins á Akureyri, Hrísalundi 1a.